Skólinn – saga

BrekkubæjarskóliBrekkubæjarskóli er annar tveggja heildstæðra grunnskóla á Akranesi. Nemendur skólans eru um 430 talsins, en starfsmenn tæplega áttatíu. Tíu bekkjadeildir eru í Brekkubæjarskóla, tveir bekkir í hverjum árgangi að jafnaði, en þrír í fjölmennustu árgöngunum (6. bekkur 2008-9). Að auki státar skólinn af öflugri sérdeild og þéttriðnu neti stoðþjónustu. Skólastjóri Brekkubæjarskóla er Arnbjörg Stefánsdóttir.

Lífsleiknistefna Brekkubæjarskóla

Haustið 2001 var tekin upp skólastefna í Brekkubæjarskóla sem ber heitið „Góður og fróður“ og byggir á sýn skólans. Skólastefnan er skýr framtíðarsýn í anda lífsleikni, manngildis og hugmynda um að til þess að ná árangri í skólastarfi þurfi að hlúa að vellíðan og starfsánægju bæði nemenda og starfsmanna skólans. Það eru forsendur fyrir góðum árangri í námi og starfi. Lesa meira um lífsleiknistefnu skólans

Grænfáninn

Í Brekkubæjarskóla er rekin öflug og skilvirk umhverfissterfna. Samstarf nemenda og starfsfólks hefur skilað skólananum réttinum til að flagga Grænfánanum, en hann er umhverfismerki sem nýtur virðingar víða í Evrópu sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum. Lesa meira um umhverfisstefnu skólans

Brekkó - myndir úr fortíð

Nokkrar myndir úr fortíð af og úr Brekkó úr safni Ljósmyndasafns Akraness.

Skóli er líka hús

Brekkubæjarskóli starfar í húsi sem byggt hefur verið í fjórum áföngum. Kjarni hússins er frá árinu 1950 og hefur upphaflega húsinu verið breytt mjög mikið frá þeim tíma. Vinnuaðstaða nemenda og kennara er góð; gott skólasafn, stór tölvustofa og sérgreinastofur. Skólinn hefur aðgang að Íþróttahúsinu við Vesturgötu til íþróttakennslu og sund er kennt í Bjarnalaug sem er innilaug. Skóladagvist og hluti myndmenntakennslu er til húsa í austurhluta Íþróttahússins í svonefndri Þekju.

Skólinn í túni Brekkubæjar

Brekkubæjarskóli hét lengst af Barnaskólinn á Akranesi. Í nokkur ár hét hann Grunnskólinn á Akranesi en þegar grunnskólar staðarins urðu tveir árið 1982 var Brekkubæjarskólanafnið tekið upp. Skólinn stendur á gömlu túni Brekkubæjar og þaðan er nafngiftin komin.

Barnaskólinn tók til starfa haustið 1880 í nýju skólahúsi við götu sem dró nafn sitt af því, þ.e. Skólabraut. Skólinn flutti í stærra hús við sömu götu 1912 og þar var hann til 19. nóvember 1950 að hann fluttist í núverandi húsnæði sem síðan hefur verið byggt við þrisvar sinnum. Næstu árin eftir að fjölbrautaskóli var stofnaður og Gagnfræðaskólinn á Akranesi lagður niður (1977) bættust þrír árgangar við í Brekkubæjarskóla og hefur hann síðan þá verið heildstæður grunnskóli með tíu árganga, þ.e. 1. til 10. bekk. Brekkubæjarskóli er einsetinn frá hausti 2001, þ.e. allir nemendur hefja skóladag kl. 8 að morgni og hver bekkjardeild hefur sína stofu. Árið 2004 tók til starfa mötuneyti fyrir nemendur þar sem boðið er upp á heita máltíð í hádeginu.

> Áttaðu þig betur á húsnæði og staðsetningu skólans