Skólareglur

Verklagsreglur varðandi skólasókn

Grunnskólanemendur eru skólaskyldir samkvæmt lögum um grunnskóla nr. 91/2008. Á foreldrum hvílir sú skylda að börn sæki skóla. Foreldrar verða að tilkynna um veikindi barna sinna til skólans og sækja um leyfi gerist þess þörf. Leyfi umfram tvo daga á að sækja um skriflega á sérstök eyðublöð.

Fari skólasókn nemenda niður fyrir 80% (á hverju tímabili eða í einstökum námsgreinum) hvort sem um er að ræða óheimilar fjarvistir, veikindi eða leyfi lætur umsjónarkennari foreldra / forráðamenn vita að málinu verði vísað til nemendaverndar-ráðs. Tekið er tillit til langvarandi veikinda eða leyfa vegna ferðalaga. Nemendaverndarráð fjallar um málið og ákvarðar um frekari aðgerðir.

> Sjá einnig: Verklagsreglur um viðbrögð við fjölþættum vanda nemenda í grunnskólum Akraneskaupstaðar

Eftirfarandi reglur eru kennurum til leiðbeiningar varðandi skólasókn nemenda:

 • Ef nemandi mætir eftir að mætingarskráningu er lokið telst hann hafa komið of seint í tíma.
 • Ef nemandi mætir þegar kennslustund er hálfnuð telst hann hafa verið fjarverandi.
 • Kennarar hafa samband við ritara varðandi þá sem eru ekki mættir og kanna hvort tilkynnt hafa verið um forföll. Ef ekkert hefur verið tilkynnt er hringt heim og spurst fyrir um nemandann.
 • Mikilvægt er að þetta sé gert í fyrsta tíma á morgnana.
 • Kennarar á yngsta- og miðstigi eiga að yfirfara skólasókn í Mentor vikulega og skrá inn ef eitthvað vantar.
 • Kennarar á unglingastigi eiga að skrá skólasókn ekki sjaldnar en einu sinni í viku og daglega ef nemandi mætir illa.

Um skólasókn unglingastigs er að öðru leyti vísað til punktakerfis sem þar er og reglna þar um (sjá hér fyrir neðan).

Til umhugsunar
Afleiðingar – ekki refsingar
Nemendur bera ábyrgð á framkomu sinni
Nemendur fá tækifæri til að bæta hegðun sína og/eða ástundun

Almennar skólareglur

MINNUMST ÞESS AÐ SKÓLINN ER VINNUSTAÐUR ÞAR SEM ÖLLUM Á AÐ LÍÐA VEL

 • Við komum í skólann til að læra – og við munum læra
 • Verum stundvís – nýtum tímann vel
 • Komum alltaf með það sem við þurfum að nota við námið
 • Verum kurteis og tillitssöm – ekki særa aðra
 • Göngum vel um skólann og umhverfi hans – alltaf
 • Komum vel fram við alla – þá líður öllum vel
 • Göngum hljóðlega um – spillum ekki vinnufriði
 • Förum vel með eigur skólans, okkar eigin og annarra
 • Borðum hollan mat í skólanum – okkar vegna
 • EINELTI VERÐUR EKKI LIÐIÐ
 • Verum við aðra eins og við viljum að aðrir séu við okkur

Sérstakar skólareglur

 • Nemendum ber að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks skóla í öllu því er skólann varðar, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisvenjum í samskiptum við starfsfólk og skólasystkin. Sjá 41. gr. grunnskólalaga nr 66/1995, um réttindi og skyldur nemenda
 • Tilkynna skal samdægurs um forföll nemanda svo þeir fái ekki skráða á sig óheimila fjarvist. Verði nemandi að vera heima vegna veikinda fleiri en einn dag þurfa foreldrar að tilkynna um forföllin á hverjum degi. Leyfi til lengri tíma en tveggja daga þarf að tilkynna skriflega á skrifstofu skólans á þar til gerðum eyðublöðum.
 • Notkun vasasíma (gsm símar) og  tölvuleikja er ekki leyfð í kennslustundum. Tónhlöður (iPod eða MP3 spilarar)eru leyfðar ef kennari samþykkir. Noti nemandi slík tæki í óleyfi í kennslustund er kennara heimilt að taka tækið af honum og afhenda deildarstjóra, eða skólastjóra. Komi slíkt upp geta foreldrar nálgast tækin hjá þeim. Nemandi fær einn punkt.
 • Verði nemandi uppvís að því að valda skemmdum á munum skólans skal hann eða foreldrar hans bæta skaðann að fullu.
 • Nemendum er óheimilt að fara út fyrir skólalóð á skólatíma. Verslunarferðir á skólatíma eru ekki leyfðar. Við fyrsta brot á þessari reglu fær nemandi viðvörun frá umsjónarkennara en við ítrekuð brot er málinu vísað til deildarstjóra sem hefur samband við foreldra. (Undantekning frá þessari reglu eru hádegishlé, en þá hafa nemendur í 8.-10. bekk leyfi til að fara heim í mat).
 • Ef nemandi veldur verulegri truflun í kennslustund og fullreynt er að hann lætur ekki segjast við áminningu kennara er heimilt að vísa honum úr tíma.
  Sé nemanda vikið úr kennslustund skal sá kennari sem það gerir senda viðkomandi til deildarstjóra eða skólastjóra. Kennarinn sem vísar út hefur samband við umsjónarkennara og þeir koma sér saman um hvernig skal staðið að því að tilkynna atvikið. Nemandi fer ekki í aðra kennslustund fyrr en sátt hefur náðst í málinu. Það skal áréttað að brottvikning úr kennslustund er neyðarúrræði.
 • Reykingar og notkun hvers kyns vímuefna er bönnuð í skólanum, á skólalóðinni og í nágrenni skólans (á skólatíma) og hvar sem nemendur eru á vegum skólans.
  Tafarlaust er haft samband við foreldra komist upp um reykingar auk þess sem sérstakt vinnuferli undir leiðsögn námsráðgjafa fer í gang. Nemandi mætir ekki aftur í skólann fyrr en hann hefur mætt ásamt foreldrum sínum á fund, boðaðan af skólanum og gert þar samkomulag um breytingu á hegðun sinni og/eða skólasókn.
 • Nemendur mega ekki vera undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna né hafa slíkt undir höndum á skemmtunum á vegum skólans. Þetta gildir um allar skemmtanir tengdar skólanum, hvar sem þær eru haldnar. Komi eitthvað þessu líkt upp er strax haft samband við foreldra og þeir látnir sækja viðkomandi. Foreldrar og nemandi eru boðaðir á fund næsta skóladag á eftir og málefni viðkomandi rædd að viðstöddum ráðgjöfum.
 • Brjóti nemandi í nemendaráði reglu 11 er honum umsvifalaust vikið úr nemendaráði.
 • Skólareglur Brekkubæjarskóla gilda hvar sem nemendur eru staddir á vegum skólans.
 • Punktakerfi (hluti af ástundunarkerfi) gildir hvar sem nemendur í 8.-10. bekk eru staddir á vegum skólans.
 • Foreldrar eru umsvifalaust látnir sækja nemendur komi upp alvarleg brot á skólareglum. Skólinn greiðir ekki kostnað sem gæti hlotist af. Kennurum er leyfilegt að leysa upp samkomur eða ferðalög telji þeir ástæðu til.

Mentor

Foreldrar / forráðamenn fá í upphafi skólaárs lykilorð að Mentor þannig að þeir geti sjálfir fylgst með ástundun, dagbókarfærslum og einkunnum sinna barna. Að öðru leyti senda umsjónarkennarar ekki upplýsingar heim nema þeir semji sérstaklega um slíkt við foreldra / forráðamenn.